Skógarkolefnisreiknir

Ilmbjörk (Betula pubescens Ehrh.)

Um er að ræða íslensk kvæmi ilmbjarkar. Ilmbjörk er harðgerð og nokkuð hraðvaxta frumherjatrjátegund. Æskuvöxtur er oftast ágætur ef hentugt land er valið og jarðvinnsla, þar sem hún á við.

Þrífst vel í flestum landshlutum en á erfiðara uppdráttar í mjög hafrænu loftslagi á annesjum og við opið haf (saltskemmdir). Hentar mjög vel til uppgræðslu á þurrum og lítt grónum eyðimörkum inn til landsins. Virðist þola þurrk einkar vel, ekki síst þar sem lítið er um samkeppnisgróður. Sem dæmi um þetta er að birki er fljótt að breiðast út á hraunum þótt þar sé grunnvatnsstaðan afar lág og breytileg. Er nokkuð viðkvæmt fyrir næturfrostum s.s. á sléttum og í dalbotnum.

Bestu svæðin á Íslandi eru: Fljótsdalshérað og Vopnafjörður innanverður, innsveitir Suðausturlands, Suðurlandsundirlendis og Borgarfjarðar ásamt austurdölum Austur-Húnavatnssýslu og innanverðum Skagafirði, Eyjafirði, S.-Þingeyjarsýslu og Öxarfirði.

Fjölgar sér mjög ríkulega náttúrulega með stubbaskotum og fræplöntum og fræið getur borist langt frá vaxtarstað (frekar létt og vængjað fræ).

Borðviðarnýtingarhlutfall er nánast ekkert og iðnviðarnýting lítil vegna lélegs vaxtarforms. Vinsæll eldiviður og eldiviðartekja möguleg en trauðla arðbær.